Biðin-svipmynd

Höfundur: Hákon Gunnarsson

Þetta var síðasti dagur lífs míns. Um það var ég alveg viss. Í huganum fór ég yfir atburðarásina fram að þessu augnabliki og sá hvernig ég hafði lent hingað inn. Hrollur læddist upp eftir bakinu. Ég var með augun lokuð, sat á hörðum bekk upp við vegg og beið. Hversu oft skildi ég hafa lent í svona aðstæðum? Á þessari stundu gat ég fullyrt, að þetta væri ekki góð leið til að eyða lífinu. Að bíða einhvers staðar eftir að sleppa út aftur, vona að maður sleppi, en geta aldrei verið öruggur um það. En sama hve oft ég lenti í vandræðum var aðdráttarafl nýrra verkefna alltaf ómótstæðilegt.

Ég klemmdi augun fastar saman, en það hjálpaði ekki. Gólfið og veggurinn víbruðu, það komu högg, misslæm, en á milli hægðist um. Þetta var ekki stöðugt ástand, heldur óreglulegt, en ég hreyfði mig ekki, tilgangslaust, alls staðar eins. Þegar ég hallaði mér aðeins aftur rakst hausinn í kaldan vegginn. Ósjálfrátt lyfti ég hægri hendinni upp og renndi fingrum í gegnum hnakkahárið, hafði samt ekki rekið mig nógu fast í til meiða mig. Líkaminn sat kyrr, en hugurinn var á fleygiferð. Í þetta skipti myndi ég ekki komast undan, myndi bera beinin þúsundir kílómetra frá heimili mínu, bara vegna þess hvaða stefnu líf mitt hafði tekið fyrir nokkrum áratugum. Bökkum aðeins til að hafa þetta á hreinu, hvaða stefnu ég hafði tekið. Starfsval, heimskulegt starfsval, myndi drepa mig. Ég bankaði hausnum nokkrum sinnum laust í steininn, opnaði augun og horfði á vegginn fyrir framan mig. Það var svo langt síðan hann hafði verið málaður að óljóst var hvaða litur þetta átti að vera. Málningin var núna flagnandi og grá, skítagrá.

„Þetta er síðasti dagur lífs míns,“ sagði ég og hélt svo áfram eftir smá umhugsun: „og að enda hann á svona stað e…“

„Viltu hætta þessu væli. Mikið andskoti ertu niðurdrepandi.“

Ég leit á félaga minn sem hafði talað. Hann stóð, hallaði sér upp að veggnum hinum megin við dyrnar, horfði beint fram og virtist vera sallarólegur. Sama var ekki hægt að segja um mig. Samt gat ég ekki fullyrt hvort hann var það raunverulega. Andlitið var kunnuglegt, en ég þekkti manninn ekki og hafði aldrei fyrr talað við hann. En það var margt líkt með okkur. Báðir rykugir upp fyrir haus, skórnir brúnir, fötin föl eins og til að falla inn í umhverfið, vestin svipuð, nokkurra daga skegg og fitugt hár. Ólíkt mér var hann ekki með bauga undir augunum. Hann seildist inn undir vestið, dró ljósmynd upp úr skyrtuvasanum og horfði á hana. Ég gat ekki betur séð en hún væri af konu og börnum, líklega fjölskyldu hans. Þá væri það annað sem væri ólíkt með okkur, því enginn beið mín heima, ekki lengur. Mér hafði enn ekki tekist að finna konu sem þoldi til lengdar að búa með mér, manni sem var alltaf annað hvort að vinna eða að bíða óþolinmóður eftir næsta verkefni. Sú síðasta hafði sagt að ég yrði að takast á við fíknina, ef ég ætti einhvern tímann að geta lifað eðlilegu lífi. Hafði ég tekið mark á henni? Ja, hérna sat ég með manni sem ég þekkti ekki og velti fyrir mér hvort ég ætti eftir að sleppa lifandi. Og í raun var það mér eðlilegra en að vera heima.

Frh í Smásögur 2013.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s