Líf

Höfundur: Róbert Marvin Gíslason

Þetta var síðasti dagur lífs míns. Hvernig ég vissi það var mér hulin ráðgáta. En ég fann að hann var kominn. Ég nam það í hverri taug og með öllum skilningarvitum. Það var bara spursmál um tíma hvenær hann fyndi okkur. Hvað myndi hann gera? Ég vissi vel hvað hann myndi gera. Ég leit á varnarlausu börnin mín sem horfðu á mig með saklausum, stórum augum. Þau vissu ekkert hvað biði þeirra ef ég myndi ekki fara og leiða hann í burtu frá heimili okkar.

Litlu munaði í gær. Hann heyrði í okkur og kom of nálægt. Hann var næstum búinn að finna okkur. Það var bara heppni að svo varð ekki. Ég fylgdist með honum úr fjarlægð og sagði börnunum að hafa hljótt. Þau voru ung, en þau vissu að líf þeirra lá við. Við höfðum hann fyrir augunum í dágóðan tíma og hann vissi af okkur nærri. Sem betur fer þá var nógu mikið fólk í kring, til að hann áttaði sig ekki á að við vorum í seilingarfjarlægð. Þetta var of tæpt og mátti ekki koma fyrir aftur.
Ég leit á börnin mín. Ég þurfti ekki að segja neitt. Þau vissu að ég kæmi aftur. Ég kom alltaf aftur. Óttinn skein úr augum þeirra. Eins erfitt og það var að skilja þau eftir ein, þá sneri ég mér við og gekk í burtu.

Ég læddist fyrir hornið. Ég hafði ávallt treyst innsæi mínu. Hafði ég rétt fyrir mér í þetta skiptið?

Jú, þarna var hann. Hann var sterklega byggður. Ég gæti aldrei ráðið við hann. Vöðvar hans spenntust upp í hverju skrefi. Hann leit í kringum sig og leitaði að einhverju. Mér fannst eins og hann væri að leita að okkur. Hann vissi af okkur í nágreninu og nú var hann mættur í enn eina veiðiferðina.

Hann var sterkur, en ég var sneggri. Ef ég gæti fengið hann til að elta mig þá myndi hann láta börnin mín í friði. Við áttum kannski möguleika.

Mig skorti samt hugrekki til að ganga fram og láta hann sjá mig. Bara tilhugsunin um hvað hann gæti gert okkur fékk mig til að skjálfa. Það hríslaðist um mig hrollur og ég fann hárin rísa. Hann kom nær og nú vissi hann af mér.

Það var komið að því. Ég lokaði augunum og dró djúpt andann áður en ég gekk fram á götuna þar sem hann gat séð mig.

Ég stóð berskjölduð á miðri gangstéttinni og horfði í blóðhlaupin augu hans. Mig langaði svo til að hlaupa í burtu eins hratt og ég gat. En ég var frosin í sömu sporum. Eina hreyfingin var skjálftinn sem gagntók líkama minn.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s