Síðasti dagur lífs míns

Höfundur: Sigrún Erla Hákonardóttir

Þetta var síðasti dagur lífs míns.  Hann rann upp líkt og aðrir dagar og ég vaknaði við að sólin skein í augun á mér.  Ég lá í rúminu mínu á heimavistinni sem ég kalla og upp við hinn vegginn lá gömul kona í sínu rúmi. Hún var sofandi, hún var orðin níutíu og fimm ára gömul, eldhress og hét Sigríður.

Ég teygði úr mínum gamla, lúna skrokk og fann að enn var allt á sínum stað, einnig gömlu skíðameiðslin í hægra hnénu sem létu alltaf á sér kræla þegar kólnaði í lofti. Hálsliðirnir voru furðu mjúkir þennan síðasta morgun.

Ég sneri höfðinu rólega fram og til baka, þar sem ég lá í rúminu og teygði úr fingrum og tám. Ég var að búa mig undir að setjast upp og þurfti dálitla upphitun fyrir það. Svo beygði ég hnén, lagðist á vinstri hliðina og studdi hægri hendi á rúmið, vóg mig þannig upp og settist fram á rúmstokkinn.  Eins og venjulega var mitt fyrsta morgunverk að signa mig og biðja morgunbænina, lyfta svo öxlunum og snúa þeim í nokkra skrykkjótta hringi.

Ramminn með myndinni stóð á náttborðinu og ég kyssti á hann eins og ég hafði gert hvern morgun síðan börnin gáfu mér þessa fallegu mynd af öllum hópnum, þar með töldum langömmubörnunum tveimur. Ég mundi að þakka fyrir gæfu mína. Svo tók ég hinn rammann, með myndinni af manninum mínum blessuðum og drengjunum okkar sem drukknuðu þegar bátur þeirra fórst. Ég fann enn fyrir gömlu sorginni, þegar ég kyssti á myndina, þótt öll þessi ár væru liðin.

Til að vekja ekki Sigríði, fór ég fram á spariklósett, burstaði tennurnar og þvoði mér í framan. Göngugrindin kom að góðum notum, Guð blessi göngugrindasmiðinn. Þegar ég kom fram, mætti ég starfsmanni á hvítum slopp sem ávarpaði mig hlýlega. “Góðan dag Guðrún mín, hvernig svafstu nú í nótt?” Ég svaraði unga manninum, mér sýndist hann ekki vera deginum eldri en tvítugur, að ég hefði sofið vel eins og alltaf, annað er ekki í boði hjá mér. Svo brosti ég uppörvandi til hans. Ég hugsa honum hafi ekki veitt af því, hann var þreytulegur sýndist mér. Um leið og ungi maðurinn hvarf fyrir horn varð mér litið aftan á hann, hann var á röndóttum strigaskóm með blikkandi ljósum sýndist mér. Ég ætlaði að reyna að muna að skoða þetta skondna skótau betur næst þegar ég sæi unga manninn.  Hlýleg orð hans og bros fylgdu mér út í daginn.

Þegar ég kom til baka að herberginu mínu, heyrði ég glamra í borðbúnaði og vissi að morgunmaturinn var handan við hornið. Alltaf eitthvað að gleðjast yfir. Ég vonaði að það yrði almennilegur ostur á brauðinu, ekki þessi undanrennumagri, heldur allavega tuttugu og fimm prósenta.

Sigríður rumskaði þegar ég skrölti inn með göngugrindina að vopni, opnaði augun og bauð mér góðan dag. Hún minnti mig á að það væri söngstund í dag, hún er svo stálminnug hún Sigríður, man allt svona. Ég er viss um að hún man enn alla afmælisdaga afkomenda sinna.

Eftir þessa áminningu til mín, lagðist hún á hina hliðina og ég þóttist vita að hún vildi dvelja lengur í draumalandinu. Hún hafði nýverið sagt mér að henni liði aldrei betur núorðið, heldur en þegar hún lægi milli svefns og vöku og endurlifði minningar frá gamalli tíð. Henni varð oft að orði, að besta lífið væri draumalífið, þar væri hún bæði alsjáandi og heyrði eins og Heimdallur sjálfur. Í draumalífinu gæti hún hlaupið léttfætt og berfætt um hlaðvarpann og leikið við systkinin sín.

Ég hef nú aldrei verið þessi nostalgíutýpa, hef reynt að halda mig sem mest í nútímanum. Mér finnst gaman að heyra af afkomendunum, hvað þeir eru að bralla. Stundum koma unglingarnir og gleðja mig með því að lesa upp úr ritgerðarsmíðum sínum.

Frh í Smásögur 2013.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s