Það er lausn á þessu líka

Höfundur: Hildur Enóla

Þetta var síðasti dagur lífs míns, hugsaði Guðný með sér og stoppaði við stífluna ofarlega í Elliðaárdalnum. Frank hafði vakið hana um morguninn með þessari tilkynningu og svo neitað að útskýra sig neitt nánar. Henni var meinilla við það þegar hann vakti hana með svona dularfullum athugasemdum. Yfirleitt voru fyrstu orðin sem hún heyrði eitthvað á borð við;

„Mjólkin er orðin súr,” eða „mamma þín kemur örugglega í heimsókn í dag.” Hann hafði oft rétt fyrir sér þannig að hún hafði meira að segja hugsað um að sleppa göngutúrnum þennan daginn en vildi ekki gera honum það til geðs. Hún var í heilsuátaki og daglegir göngutúrar voru stór partur af því. Ef hún sleppti einum degi var auðveldara að hætta við næsta dag og útiveran gerði henni gott. Guðný hafði samt með varann á sér út af því sem hann hafði sagt.

Átti hún að ganga meðfram litlu eða stóru ánni? Það var meiri hætta á því að hún yrði keyrð niður á veginum meðfram þeirri stóru heldur en þeirri litlu svo hún fór ekki yfir stífluna heldur hélt niður eftir Elliðaárdalnum meðfram minni ánni. Hún fór yfir göngubrúna inn á Hólmann fyrir neðan fossinn og gekk í rólegheitunum eftir einum af stígunum í skóginum. Það var fallegur eftirmiðdagur í september, golan köld og haustlitirnir brakandi ferskir.

Svartur ruslapoki lá meðal köngla og laufblaða inni á milli hávaxinna trjánna og stakk í augun. Einhver var greinilega búin að henda honum nýlega því hann var ennþá gljáandi svartur en ekki mattur og rykugur. Subbuskapur er þetta, að fólk geti ekki drullast til að taka ruslið sitt með sér, hvað er fólk líka að menga náttúruna? Úr því hún hafði verið svo óheppin að taka eftir pokanum átti hún eftir að sjá hann í hvert einasta skipti sem hún gekk þessa leið og pirra sig á honum. Guðný stoppaði, velti fyrir sér að taka hann með og henda honum en hætti við. Af hverju ætti hún líka að vera að hirða upp rusl annarra? Átti hún ekki nóg með sig? Hún sá sjálfa sig fyrir sér eins og bíl sem hikstaði fram og til baka. Okei, hugsaði hún, ég tek pokann og hendi honum og málið er dautt.

Hún sneri við, beygði sig inn undir greinarnar og teygði sig í hann. Hann var þyngri og minni en hún hafði haldið, eins og þungur fótbolti. Hún heyrði raddir nálgast og flýtti sér lengra á milli trjánna því hún nennti ekki að hitta fólk. Á meðan að þau fóru fram hjá skoðaði hún pokann betur. Þetta voru greinilega engar dósir og samlokurestar eins og hún hafði haldið. Forvitni fékk hana til að opna hann. Ofan í var annar poki og dagblöð. Guðný fletti blöðunum varlega með annarri höndinni og við henni blasti blóðugt karlmanns andlit. Hún hljóðaði upp og henti því frá sér. Fólkið á stígnum stoppaði, þagnaði augnablik og byrjaði svo að ræða ópið sem þau höfðu heyrt.

Guðný hélt fyrir munnninn með hjartað í maganum og starði á opinn pokann og ljósan hárlubban sem upp úr honum stóð. „Síðasti dagur lífs þíns,“ hafði Frank sagt. Hans, hugsaði hún með sér. Síðasti dagur þessa manns en ekki mín. Þegar fólkið á stígnum hélt för sinni áfram þorði hún að anda aftur og studdi sig við hrjúfan börkinn á hálfdauðu og greinalausu grentiré. Hvað átti hún að gera?

„Aldrei að hirða upp eftir aðra,“ Frank myndi lesa henni lexíuna þegar hún kæmi heim og segði honum hvað hefði gerst. Ég pakka þessu saman aftur og læt einhvern annan um að hirða þetta. Nei, ég get ekki komið við þetta aftur. Svo eru fingraförin mín á pokunum. Einhver gæti haldið að ég hafi… Ég nenni ekki einhverju veseni, hendi bara pokanum í ána. Set steina í pokann og hendi honum ofan í djúpa hylinn ofan við hitaveitustokkinn. Þúsundir hugsana þutu í gegnum huga hennar og að lokum svimaði hana og hún settist niður á kalda jörðina og beygði höfuðið á milli hnjánna til að ná andanum aftur.

Alltaf skal það vera ég sem lendi í öllu svona. Aldrei lenda aðrir í því að finna hausa á göngutúrnum sínum. Hver voru líka réttustu viðbrögðin við svona atburði? „Að taka upp gsm símann og hringja í 112,” sagði hjálpleg rödd í huga hennar. En Guðný gekk aldrei með gsm símann á sér, því það var hægt að rekja þessa síma og fylgjast með því hvar þeir voru og svo vildi hún líka vera í friði þegar hún var úti að ganga.

Auðvitað hlustaði hún á skynsömu röddina. Setti hendurnar inn í ermarnar og vafði pokanum eins vel saman og hún gat og hélt heim á leið.

Frh í Smásögur 2013.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s